Karfan er tóm.
Styrktaraðilar - fjáröflunarviðburðir
Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna á marga góða bakhjarla sem sumir hverjir styrkja félagið myndarlega á hverju ári, aðrir sjaldnar.
Undanfarin ár hefur Team Rynkeby Ísland, TRIS, verið langstærsti styrktaraðili félagsins en styrkir frá TRIS til SKB nema á fimm ára tímabili yfir 100 mkr. Styrkir frá TRIS renna að stærstum hluta til rannsókna og er það sérstakt fagnaðarefni og forréttindi að geta valið rannsóknarefni og staðið straum af rannsóknum sem munu auka skilning og vonandi lífsgæði skjólstæðinga félagsins.
Oddfellow-reglan á Íslandi hefur einnig styrkt SKB myndarlega undanfarin ár. Langstærsta framlagið kom úr Styrktar- og líknarsjóði Oddfellow og stóð straum af endurbótum og viðgerðum á Hetjulundi, hvíldarheimili SKB á Ketilsstöðum í Landsveit. Þá hafa einstaka stúkur lagt félaginu til fé og styrkt það með vinnuframlagi en Oddfellowstúkan Sæmundur fróði tók aðstandendaíbúð félagsins á Lindargötu rækilega í gegn í árslok 2020.
Ágóði af sölu jólakorta og merkispjalda Oddfellowa jólin 2020 rann að auki óskiptur til SKB.
Nokkrir viðburðir hafa verið fastir liðir í fjáröflun félagsins, m.a. kótelettusala á bæjarhátíðinni Kótelettunni á Selfossi, sem haldin er í júní ár hvert og Reykjavíkurmaraþon þar sem fjölmargir hafa skráð sig til þátttöku og beðið um að áheit á sig rynnu til SKB.
Á hverju ári rekur ýmsa fjáröflunarviðburði á fjörur SKB sem skólahópar, félagasamtök, starfsmannahópar og einstaklingar standa fyrir og láta afraksturinn renna til félagsins.
Í mörg ár hefur SKB verið með samning við Advania um myndarlegan styrk í formi tölvugjafa til barnanna í félaginu.
Fyrir þennan stuðning eru forsvarsmenn og aðrir félagsmenn afar þakklátir, enda gerir þetta allt SKB kleift að standa vel við bakið á félagsmönnum sínum.