Erfðagjafir

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fékk stóra erfðagjöf á fyrstu starfsárum sínum þegar Sigurbjörg Sighvatsdóttir lést en hún sat í óskiptu búi sínu og manns síns, Óskars Th. Þorkelssonar. Segja má að sú gjöf hafi, a.m.k. að hluta, lagt grunninn undir félagið.


Félaginu hafa borist nokkrar erfðagjafir síðan og stuðla þær allar að því að félagið geti staðið vel við bakið á félagsmönnum sínum, fjölskyldum barna með krabbamein. Oft þurfa þær stuðning löngu eftir að krabbameinsmeðferð lýkur, þ.a. hópur þeirra sem leitar eftir stuðningi frá félaginu er mun stærri en fjöldi greindra barna á hverju ári segir til um en 12-14 börn greinast með krabbamein á hverju ári á Íslandi.


Þeir sem eiga skylduerfingja, þ.e. maka og/eða börn á lífi, geta aðeins ráðstafað þriðjungi eigna sinn til annarra en þeirra. Ef það er vilji þeirra þurfa þeir að gera erfðaskrá og best er að fá við það aðstoð lögfræðings til að örugglega sé rétt að öllu staðið, vilji arflátans komi skýrt fram og honum verði örugglega framfylgt. Erfðaskrá þarf að vera undirrituð og vottuð og best er að skrá hana hjá sýslumanni.


Þeir sem ekki eiga skylduerfingja geta ráðstafað öllum eigum sinum í samræmi við erfðaskrá. Liggi erfðaskrá ekki fyrir renna eigur til annarra skyldmenna. Séu engir ættingjar á lífi og engin erfðaskrá gerð, renna eigur í ríkissjóð.
Erfðagjafir til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna eru undanþegnar erfðafjárskatti.